Leita í fréttum mbl.is

Andersen-systkinin frá Sólbakka og forfeður þeirra

Ómar Evu- og Valdimarsson flutti þessa tölu á fyrsta ættarmótinu í Eyjum haustið 1983. 

Elstu merki um forfeður okkar á danska ríkisskjalasafninu, þar sem ég sat nokkra daga sumarið 1983 og las gömul manntöl og kirkjubækur, eru úr manntalinu í Fredriksborgar-amt snemma árs 1787. Fjölskylda númer 70 í manntalinu frá Ude Sundby, sem ekki er lengur til formlega þótt hlutar af Oppe Sundby séu nú kallaðir Ude Sundby (þessi pláss eru mjög nærri Fredrikssund) - fjölskylda nr. 70 var vinnumaður og vefari, Wilum Nilausen, 59 ára gamall, kona hans Abelone Jensdatter, sex árum eldri - og nokkurt skass eftir því sem sagan segir - og tvö börn þeirra, Jens Willumsen 22 ára og 17 ára stúlka, Marin Willumsdatter.           

Wilum Nilausen var listfengur maður sem marka má af því að á þessum tíma fengust ekki hvaða menn sem var við vefnað. Til þess þurfti nokkra kunnáttu og lagni, jafnvel þótt ekki hafi verið um eiginlegan listvefnað að ræða. Sonur Wilums, Jens Willumsen, lærði af föður sínum og varð síðar ágætur vefari.           

En þau sæmdarhjón, Wilum Nilausen og Abelone Jensdatter, voru langa langa langa langa langafi minn og amma - sem þýðir að börnin mín eru níunda kynslóð frá Wilum og Abelone. Það má geta þess hér til gamans að í kóngsins Kaupinhafn er bráðskemmtilegt veitingahús sem ber einmitt nafnið Abelone. Og við ættum kannski að hafa í huga er næstu stúlkubörn fæðast inn í fjölskyldur okkar að það eru til fleiri nöfn en Jóhanna, Pétur og Eva - það er til dæmis til nafnið Abelone!           

Samkvæmt þessu manntali virðast þau Wilum og Abelone hafa verið fædd 1728 og 1722. Þau yrðu því 255 ára og 261 árs á þessu ári.           

Við snögga yfirferð var engin frekari merki að sjá um dóttur þeirra Marínu. Ég hef því gengið út frá að hún hafi gifst einhverjum sæmdarmanninum í sveitinni og átt börn og buru. En sautján árum síðar, 1801, var enn á ný talið fólkið í sókninni. Þá var Wilum gamli Nilausen látinn en Abelone orðin 83 ára og búsett á heimili sonar síns, Jens Willumssonar, og konu hans, Önnu Óladóttur (Anne Olesdatter). Strákur hafði farið að dæmi föður síns og kvænst eldri konu því Anna fæddist árið 1764, tveimur árum á undan Jens.           

Jens þessi vann alla tíð hörðum höndum eins og sést best á því að 35 ára gamall var hann ekki einasta vefari heldur og sjálfstæður bóndi í Ude Sundby. Þau Anna hafa gifst í kringum 1790 því þegar manntal fór framn 1801 áttu þau sex börn og var það elsta tíu ára. Það var þó ekki fyrr en árið eftir, nánar tiltekið 7. maí 1802, að næsti forfaðir okkar kom í heiminn því þá fæddust þeim Jens og Önnu tvíburnarnir Anders og Anne Dorthe. Þau fæddust á bænum Bilidt sem fólk á þessum slóðum kannast ennþá við, að minnsta kosti ættingjar okkar í Fredrikssund. Auk fjölskyldunnar, Abelone gömlu, Jens og Önnu og barnanna, sem urðu að minnsta kosti átta, voru á Býlinu tveir vinnumenn, annar unglingur, hinn fullorðinn maður.           

Anders Jensen náði sér síðar í konu frá Krogstrup, sem er þarna í nágrenninu, Sidse Hansdatter, árinu yngri en hann var sjálfur. Framan af bjuggu þau í Ude Sundby og eignuðust þar að minnsta kosti sjö börn. Það má sjá af manntalinu í Fredrikssund 1845, þegar þau hafa nýlega verið flutt þangað til þorpsins, sem þá var.            

Yngsta barnið var þá óskírt meybarn en í miðjum hópnum var níu ára drengur, sem hét Jens Willumsen eftir afa sínum - en hans kynslóð var sú fyrsta sem bar nafnið Andersen og þar með, um miðja síðustu öld, hættu Danir að kenna sig við feður sína eins og við gerum enn hér á landi. Anders Jensen, hinn eiginlegi ættfaðir, ef við miðum við Andersen-nafnið, var fjölhæfur verkmaður til sjós og lands og var orðinn lóðs um fertugt. Sonur hans, Jens Willumsen Andersen, var einnig lóðs; hann var langafi móður minnar og þeirra Andersensystkina sem við erum flest komin af og heiðrum nú um helgina. Kona hans var Charlotte Amalia Andersen, fædd Jensen.

Um fjölda barna þeirra fannst ekkert við svo snögga yfirferð sem ég varð að láta nægja á þjóðskjalasafni Dana, en þau hafa greinilega verið ung þegar þau eignuðust soninn Carl Willum Andersen, langafa minn. Fæðingarár hans og konu hans, Juliane Kristine Poulsen, hef ég ekki en þau voru bæði fædd snemma árs, Carl Willum 28. febrúar og Juliana Kristine 26 mars. Meira að segja eftirlifandi dóttir þeirra og afasystir okkar margra af minni kynslóð, Eva, sem býr í Fredrikssund og er með hressari konum, man ekki hvenær þau voru fædd. Hún sagði okkur í sumar að móðir sín, Juliana, hefði aldrei talað um svoleiðis hluti eða fjölskyldumálefni yfirleitt.

En þá erum við komin að afa og ömmu, Danska-Pétri og Jóhönnu Guðjónsdóttur. Afi var einn níu barna þeirra Carls Willums og Júlíönu og upphafsmaður fjölskyldu okkar á Íslandi. Hann fæddist í Fredrikssund 20. mars 1887 og hefði því orðið 96 ára á þessu ári. Amma fæddist tæpum tveimur árum síðar uppi á landi, 27. febrúar 1889. Af þessum níu systkinum lifa þrjú: Svend, sem býr í Reykjavík, Eva, sem býr í Fredrikssund, og Elna sem býr í Odense. Afi og systkini hans eignuðust samtals 32 börn svo við sjáum augljóslega að þótt við séum mörg hér þá eru miklu fleiri í Danmörku og Svíþjóð, því eitthvað af þessu fólki mun búa þar.            Langafi, Carl Willum, drukknaði ásamt Jörgen syni sínum 15. janúar 1934 utan við Kristianssand í Noregi við þriðja mann. Þeir voru á leið til Íslands með bát en strönduðu í vondu veðri. Lík feðganna fundust aldrei en þriðji maðurinn, lóðs frá Óðinsvéum, mun hafa fundist. Langamma lifði í ein sjö ár eftir það og hafði nóg að gera við að ala upp barnaskarann og stjórna stóru heimili. En eftir því sem Eva gamla Jespersen, eins og hún heitir nú, sagði okkur í sumar þá kvartaði hún aldrei; vol og víl var ekki stíll þeirrar konu eða langafa sjálfs - og það er það ekki enn í þessari fjölskyldu. Það má heldur aldrei verða!

Ég gerði nokkrar tilraunir til að koma á fjölskyldutengslum við danska listmálarann Jens E. Willumsen. Það tókst ekki svo óyggjandi væri en bæði onkel Theodor, Eva Jespersen og fleiri danskir ættingjar kváðu sig vita fyrir víst að þar sé sama Willumsen-nafnið á ferðinni og hér hefur verið rakið.

Því er ekki ólíklegra en hvað annað að forfaðir málarans, trúlega afi hans, hafi verið Wilum Jensen, einn sona Jens Willumssonar og Önnu Óladóttur, eldri bróður Anders Jensen, þess sama og ber ábyrgð á Andersen-nafninu. Einhverntíma skrifuðu ættingjar okkar í Fredrikssund málaranum, sem þá var búsettur í Frakklandi, og spurðu hvort hann byggi yfir einhverjum upplýsingum í þessa átt. Það gerði hann ekki - en bað að heilsa öllum hugsanlegum ættingjum í Danmörku og á Íslandi.

Og hvort við erum komin af frönskum aðalsmönnum, eins og er svo skemmtilegt að halda fram, er ekki endanlega vitað. Kirkjubækur á Þjóðskjalasafninu í Kaupmannahöfn ná ekki lengra aftur en til ársins 1787. Eldri bækur virðast hafa glatast.

En þetta er einmitt tími frönsku byltingarinnar, hún var háð 1789, og hver veit nema að t.d. foreldrar Wilums Nilausens hafi komið frá Frakklandi á þessum tíma þegar þar var mikið öngþveiti og friðsælt líf blasti við ekki mjög langt í norðri. Það er ekkert ólíkleg skýring - því mín reynsla af Andersenunum er sú að þeir séu seinþreyttir til vandræða: þetta fólk hafi einfaldlega ákveðið að fara í burtu í stað þess að standa í bardögum og aftökum.

Kannski tekst okkur síðar að róta í fleiri og eldri bókum í gamla landinu þannig að við lærðum enn frekar um uppruna okkar sjálfra - og komumst þannig eitthvað nær áleitnum spurningum um hver við í rauninni erum og hvert við stefnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

frábært framtak að opna ættarsíðu.

Svo ég fái nú að vera forvitin þá langar mig ofboðslega að vita hver heldur út síðuna!?.

Kemur til með að vera ættartré sem maður getur stúdderað? 

kv Laufey Rós Valdimarsdóttir.

laufey rós valdimarsdóttir (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 17:58

2 identicon

Ég ákvað að taka tillögu Laufey Rósar, og þar sem ég er búin í námi (í bili allavegana) og er eins og er bara atvinnulaus og geri voða lítið nema njóta sólskinsins í Kanada þegar það lætur sjá sig - þá er ég að vinna í því að gera ættartré Andersen fjölskyldunar. Það á eftir að taka dálítinn tíma þar sem þetta er alveg heljarinnar ætt, en ég er byrjuð á þessu og þetta ætti að smella saman á endanum. Gæti verið ég þurfi smá hjálp hér og þar, og þá mun ég láta heyra í mér og vonast eftir svörum. Ég skelli inn slóðinni þegar ég er komin með eitthvað sem varið er í.

Kv,

Agnes Vald.

Agnes Vald. (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 15:54

3 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Hæ hæ Agnes Vald. (Frænka) ég heiti Helgi Þór úr Eyjum og kíkti inn á síðunna eftir að Halldór bróðir sendi mér línkið af henni, jæja ég er mjög hrifinn af þessu framtaki þínu,  eftir því sem árinn líða þá er eins og maður kunni betur að meta ætt sín meira og svo missti ég af seinna kvöldinu á síðasta ættarmóti, þannig að ef ég fæ einhverju ráðið þá mæti ég( ef Guð lofar). Bið að heilsa í bili Helgi Þór Gunnarsson.

Helgi Þór Gunnarsson, 29.5.2007 kl. 20:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andersen
Andersen
Hérna munu birtast upplýsingar um ættarmót Andersen ættarinnar, sem stendur til að halda í Vestmannaeyjum snemma hausts. Allar myndir af ættmennum eru ákaflega vel þegnar. Vinsamlegast sendið þær í pósti á andersen@graenn.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband